Epukiro

Posted: 22 January, 2020 in Namibia

Nú ég hætti við að fara til Nasrah og fór frekar til Epukiro. Munurinn er einna helst sá að í Nasrah fer maður bara til að njóta. Þar er framleiðsla á dýrum vínum og mikil náttúrufegurð meðan í Epukiro er hrikaleg fátækt.

Epukiro

Þetta er ca 2000 manna þorp sem hefur Settlement status en verið er að reyna að fá Village uppfærslu. Við það verða til skatttekjur og þetta verður eitthvað aðeins meira. Núna eru steinkubbar hérna, kannski 20 fm. sem Bush mönnunum er úthlutað og svo eru það smá bætur, 1300 Namibiu dollars, á mánuði. Hjá mörgum dugir sú upphæð ekki út útborgunardaginn.

Nú af þessum 2000 manns eru 600 SAN Bushmen. Þeir vinna fæstir, enda enga vinnu að hafa fyrir þá þar sem þeir eru Nomads og hafa það ekki í sér að hugsa fram í tímann. Á sínum tíma fengu þeir einhverja landspildu og fimm geitur á fjölskyldu og þá slógu þeir bara upp veislu og átu þær allar. Daginn eftir urðu þeir að sjálfsögðu svangir enda geiturnar búnar. Þeim var bara kippt inn í einhvern veruleika sem þeir þekktu ekki og kunnu ekkert á. Þeir hafa engan kost á menntun og eru næstum eins og Zombies hérna. Eitt eiga þeir þó sameiginlegt og það er alkahólismi. Hann er hrikalegur hérna og brugga menn einhvern óþverra og bæta hverju sem er í til að fá eitthvað bit í þetta. Svo gerast menn full kræfir á rafgeymasýrunni og það liggur helmingur fólksins fárveikur. Ég held að óþverrinn heiti Tup eða eitthvað svoleiðis.

Það er einhver fjöldi Harera Bush-manna hérna líka en þeir hafa náð einhverjum tökum á tilverunni og er mikill munur að sjá þá. Reyndar físískt því þeir eru eins og við Evrópubúar í vextinum meðan SAN Bushmen eru lágvaxnir og mjög grannir.

Fyrsta daginn mætir einn svona hress með að þvi er virtist svona góða kúluvömb. Það var nú ekki aldeilis. Maðurinn var bara með þarmana í lúkunum en eitthvað plástradrasl og einhvern vísi að umbúðum. Út vall svo gul drulla einhver og alveg ægileg angan. Systir Anna, 74 ára dásemd, bað mig að aðstoða sig og ég sagði að sjálfsögðu já. Ég þurfti nú að taka mig á eintal í huganum og sannfæra mig um að þetta væri ekkert mál. Þetta hafðist og verður þetta nú að teljast eftirminnilegasta fyrir hádegi, fyrsta dag í nýrri vinnu.

Eftir eins og hálfs tíma mat, sem er standard hérna í mesta hitanum, er ég aðeins að vinna fyrir managerinn í tölvumálum þegar ég er beðinn að koma og aðstoða i neyðarherberginu. Þar var mættur á börum höfðingi flokksins og sá hefur átt betri daga. Rúmlega sjötugur og mjög illa haldinn af fíkn í áfengi og gras. Sjálfsagt hefur hann ekki náð 50 kílóum því ég hélt mjög auðveldlega á honum, það eina sem ekki var auðvelt var að höndla lyktina af honum. Nú við drifum hann úr og þrifum og svo var bara reynt að koma í hann vökva. Það var ákveðið að hafa hann hjá okkur um nóttina og sjá svo til morguninn eftir hvort þörf væri á að koma honum á spitala. Við erum með lítið húsnæði hérna sem heitir Patience house og er bara eitt herbergi og bað. Þangað hélt ég á honum. Morguninn eftir þegar ég fór að líta til með honum mætti mér hin mesta bræla og kom fljótlega í ljós að allt sem við höfðum náð að koma í hann um kvöldið hafði farið hressilega af honum um nóttina. Seinna um daginn er ákveðið að fara með hann á spítalann þar sem hann lést svo um nóttina.

Þetta voru tvö dæmi og því miður eru þau ansi mörg svona, vannærð börn, þurr börn, bækluð börn vegna skorts á umhyggju. Allir peningar fara í dóp og brennivín.

Á fimmtudögum erum við með “Mother and baby feeding” en þá er skellt í veislu. Stór pottur af grjónum, einn af súpu með smá kjöti og svo lítill, 9 lítra, af sætum kartöfflum. Upphaflega var meiningin að bjóða nýbökuðum mæðrum að borða en svo hefur verið að bætast í þetta. Nú er þeim helst vísað frá sem eru undir áhrifum. Þá er því miður ekki hægt að hafa í hópnum. Mig minnir að við höfum gert 120 skammta sem fóru allir. Svo fengu samtökin spons fyrir samskonar nema núna handa gamla fólkinu, 26 ætluðu að koma, en þegar itl kom mættu 6. Bæturnar höfðu verið greiddar út um daginn og þá er rétt að fá sér aðeins í glas.

Hann Toby litli er fyndinn strákur. Mamma hans alveg ágætur starfsmaður en kannski ekki mikið í smámununum eins og t.d. að klæða hann eða þrífa og skiptir þá ekki máli hvort það er hann eða hún sjálf.

 

Á miðvikudögum er haldið í Outreach. Þá förum við á stóra vinnustaði þar sem staffið býr á staðnum en vinnuveitandinn vill ekki að það fari í eitthvað skrepp á heilsugæslu. Sumir kalla svona jafnvel kúgun en þeir um það. Þarna eru unnin heilbrigðisstörf við topp aðstæður, úti undir berum himni með jörðina trausta undir fótum. Þetta þykir svo góð jörð að vörtusvínin deila henni með okkur meðan við erum að. Í Naankuse er okkur harðbannað að fara inn í gerðið hjá vörtusvínunum því þau hjóla alveg hiklaust í þig. Við vorum enda með prik til að reka þau burtu. Engin heilsugæsla fyrir þau.

Þetta eru geggjaðar aðstæður. Þarna talar fólk um það sem að því er fyrir allra eyrum, ekkert prívasí. Á miðjumyndinni er hún Aneki að gramsa í lyfjaskápnum. Þarna mætir fjörgamalt fólk og sest á lélega tjaldstóla til að láta taka blóðþrýstinginn og svona eitthvað svo hjálpar maður því á fætur. Flestum dugir að fá smá Parasetamól í flösku. Það virkar á flest.

 

Heilsugæslan okkar er alveg ágæt. Hér gera allir það sem þarf til að halda þessu gangandi. Hreinlæti er ekkert ofarlega á lista en vandséð hvernig á að halda öllu spikk and span verandi á mörkum eyðimerkur. Sumt er hægt að skrifa á fjárskort enda er þetta í uppbyggingarferli en sumt er alveg hægt að skrifa á slóðaskap. Toby litli gengur t.a.m. ber um allt og pissar bara og gerir þar sem hann er. Húsgögnin eru frá fyrri eigendum sem ætluðu að græða á þessu pening en áttuðu sig á endanum á að það er ekki líklegt að græða á neinu hér. Það er kannski með viðskiptaháttum sem helst þekkjast norður í hafi sem menn græða pening á fátækum.

Okkur sjálfboðaliðum eru settar nokkrar einfaldar reglur. Þegar maður er búinn að vera hérna í smá tíma skilur maður þær betur. Hérna eru nokkrar þær helstu:

x Don’t buy alcohol from local bars

x Don’t drink alcohol outside the house

x Do not drink alcohol with staff members

x Be aware that the community is poor, so don’t eat in front of them please

x When going out, go out with a staff member

x Do not go out after dark

x Be aware of: Cats, Bats, Dogs, Snakes.

x Security comes first

Hérna er rétt að taka fram að Staff member er innfæddur starfsmaður úr þorpinu.

Þessi hluti ferðarinnar hefur verið skemmtilegasti en jafnframt sá erfiðasti. Það er oft sem það hefur komið upp að maður þarf að minna sig á aðstöðumuninn á okkur. Þegar vinnu lýkur fara þau heim í kofann meðan við förum heim og hirðum ekki einu sinnu um að borða helvítis skorpuna á brauðinu meðan við vælum af vorkunn yfir hvað þetta fólk hefur það skítt. Mikið held ég að Samherjaræflarnir með sinn sjávarútvegsráðherra og leiguforstjóra hefðu gott af því að labba hérna einn góðan hring að kvöldi til. Þangað til það gerist verðum við að treysta á Karma.

 

 

 

Kanaan

Posted: 29 December, 2019 in Uncategorized

Þetta er staðurinn! Hérna er maður bara kominn inn í alvöru eyðimörk, sjálfa Kalahari. Erum hérna í húsi sem var eitthvað en er gestahús núna. Baðherbergi í hverju herbergi og 3 rúm en ekkert rafmagn og verandi út í eyðimörk þá er heldur ekkert Internet. Það er heldur ekki GSM samband utan í einu horni hússins og það er ekki hægt að nota það til að tala. Maður getur skrifað skilaboð í Messenger t.d. eða WhatsApp og skilið símann eftir í horninu og þá er mögulegt að einhverjum tímum síðar verði þetta bara farið.

Hérna er alveg ótrúlega heitt. Við erum þetta í 40 gráðunum en okkur er sagt að búast við að hitinn fari vel yfir 50 og ef við erum á einhverju labbi þá eiga að vera fjórir lítrar í bakpokanum. 

Ég hleyp ekki mikið hérna það er klárt. Vinnan hérna er að langmestu leyti tengd rannsóknum. Hérna er einn Mongoose, sá guli skemmtileg tilviljun, geit, nokkrir hestar og svo tvær Cheetah dömur. Þær eru hérna þar sem einhver snillingurinn ætlaði að fá sér svoleiðis sem gæludýr og gafst svo upp á því að vera með 50 kílóa ketti. Dýrin enduðu hér en þar sem þær hafa verið svo lengi í mannahöndum er ekki hægt að sleppa þeim.  Kunnugleg saga þar. Megnið af vinnunni fer fram einhversstaðar út í eyðimörkinni. Þar erum við að tékka á sjálfvirkum myndavélum, skoða nýleg dráp og spor í kringum þau. Virkasta rándýrið hérna er hýenan en þar á eftir er það blettatígurinn.

Við erum fimm hérna þar af tvær kellur frá Hollandi. Önnur talar mun verri ensku en hin og er alveg hægt að hafa gaman af sérstaklega þar sem hún hefur nokkuð hvellan   talanda og alveg hægt að verða pirr á henni. Nú við erum að skoða þetta hræ af Oryx  sem liggur ekki langt frá vatnsbóli og stjórinn er að segja okkur frá þessu. Hýenu dráp sem svo er skipt upp og fá refir og sjakalar sinn hluta sem er þá inniflin og svoleiðis dót en svo éta meira að segja aðrir Oryx-ar ómelta grasið úr hræinu. Það er engu hent í eyðimörkinni. Nú stjóri telur svo um orma og bjöllur, Se Bítles, what is se bítles? Þarna þurfti ég að taka mig á og labba aðeins afsíðis því mikið djöfull langaði mig að segja: “æ þú veist þarna John, Paul, George og Ringo” en hún hefði nú sennilega ekki fattað djókið þannig að ég lét það bara eiga sig.

Þegar maður er þetta að þvælast um sér maður ótrúlega margt sameiginlegt með Íslandi. Stundum finnst mér ég kominn upp í Landmannalaugar en eins og með hálendið okkar þá er þetta einstaklega fallegt þó þetta sé nú að megninu til sandur.

 

23 des

Þorlákur og ég illa sofinn. Hreingerningar hjá mér fyrrihlutann og svo rölti ég upp í Camp í hádeginu til að fá mér smá kríu. Á bakaleiðinni ruglaðist ég eitthvað smá og áður en ég veit af er ég ramvilltur. Finn einhvern vegaslóða sem ég ákveð að fylgja. Skelli mér á skokk þar sem ég var að verða tæpur á tíma en allt í einu sé ég bara karlljón liggjandi fram á fætur sér. Þetta var alveg út úr kú þetta var svo óraunverulegt. Heilt ljón og það bara svona slakt á því. Annað hvort sá það mig ekki eða var bara alveg skítsama en mér var sko ekkert sama. Bakkaði í rólegheitunum og komst í hvarf og þorði þá að snúa mér við og ganga sæmilega í burt. Það er ekkert grín að vera sífellt að líta aftur fyrir sig og allt um kring, minnugur þess sem mér var sagt um að ljónin “Stalk-uðu” bráðina, og að leita vel á jörðina fyrir framan sig ef vera kynni að þar leyndist eins og ein Kóbra eða jafnvel ein Mamba.

Ég fann loksins veginn og náði til baka en missti því miður af hópnum. Fokk hvað þetta tók á.

Í kvöldmatnum settist hjá mér skoskur náungi sem hefur verið hérna frá 2010 og fór ég að segja honum frá ljóninu. Hann var ekki hinn hressasti og sagði að þetta væri mjög aggressíft dýr og girðing eða ekki skipti það engu máli. Hann spurði hvað ég hefði verið að gera svona langt úr leið og ég sagði honum að ég hefði eitthvað ruglast, kannski verið soldið í eigin heimi að leita að slöngum og hlusta á musik. Það fór ekki vel í hann og sagði hann að það væri algjört NEI! við því að vera ekki með alla sensa í lagi þegar maður væri hérna. Það væri algengt að hingað slæddust villtir hlébarðar og þeir gefa bara frá sér eitt, kannski tvö, aðvörunar urr og síðan ráðast þeir á mann. Ég var sem sagt nokkuð heppinn í dag.

Við kláruðum svo kvöldmatinn og þegar við vorum að gera okkur klár að labba af stað þá komu starfsmenn að og spurðu hvort það væru einhverjir úr okkar Camp hérna. Við jánkuðum því og þá var okkur sagt að sést hefði til stórs bavíana í grennd við campið okkar og því mættum við ekki fara til baka gangandi, við yrðum sótt.

Núna er ég inn í tjaldi og velti fyrir mér hvort ég eigi að þora að fara á klósettið. Ég meina ljón eða hlébarði eru slæmir en bavíani kemst allt og getur ansi margt. Verandi vegan eru þeir með rosalegar tennur og alveg hrikalega sterkir. Reyndar eru apar það yfirleitt.

24 des

Annað kvöldið af Baboon alert. Apinn fór inn í eitt húsið í gær með því að brjóta hurðina. Hann réðist ekki á íbúann en opnaði flösku af sítrónu drykk og fékk sér snakk. Við vorum vöruð við að við gætum heyrt byssuhvelli og væri þá verið að skjóta púðurskotum til að reyna að fæla apann frá því að vilja vera hérna. Okkur er sagt að halda okkur inni í tjöldunum með ljósin slökkt og engin hljóð. Skrítin jól þetta, einn inn í tjaldi með allt myrkvað. Ég stalst reyndar til að horfa á Bellator en var með skjáinn á tölvunni mjög skyggðan. Alla nóttina glymur síðan eitthvað sem virðist vera alarm.

20 des

Fórum nokkur í ansi langa göngu um svæðið. Planið var að reyna að spotta ljón eða “kill” eftir það. Þó svo að ég hafi umgengist flestar tegundir stóru kattanna þá er það verulega spes að vera á þeirra svæði að leita að þeim. Gaurinn sem var með okkur lét okkur vera í röð fyrir aftan sig, hann var vopnaður, og ef við sæum ljón ættum við alls ekki að kalla upp og í raun alls ekki bregðast við. Flest stóru dýranna growl-a á mann til aðvörunnar en ljónin “Stalk-a” mann. Öll þessi dýr eru bara að verja sitt svæði og ljónin láta sjá sig til aðvörunar.

Fundum hvorki ljón né kill en gengum fram á tvær fíla vinkonur og var það engu líkt. Við reyndum að læðast að þeim en allt í einu reisti sú stærri sig upp, gargaði á okkur og hljóp í áttina til okkar. Fokk hvað ég varð skít hræddur. Þegar hún var komin óþægilega nálægt reisti stjórinn upp hendur og öskraði á hana. Við það stoppaði hún og horfði á okkur og þegar við bökkuðum bakkaði hún. Lindsey frá Ástralíu náði þessari klikk mynd af þessu. 21 des

 

Nú er ég allur að komast inn í gang dagsins hérna. Mikill tími fer í matartilbúning fyrir dýrin, þau hafa öll sínar þarfir og t.d. dugir Merkat að fá kjúklingaháls en svo eru tveir þannig sem þurfa að fá kjúllan niðurbútaðann í pínu litla bita og þurfa að líða nokkra sek milli hvers bita. Ef þeir fá bara að graðga í sig hætta þeir að kyngja og kafna bara. Þessir litlu sætu gaurar eru alls óhræddir við kóbra slöngur og vaða í þær ef þeir sjá þær, við þurfum að passa okkur þegar við sinnum þeim.

Þegar við gefum Cheetunum okkar dugir háls af kjúklingi ekki. Við fengum hest hausa gefins og þeir voru teknir í tvennt og gefnir þannig. Það vakti ekki mikla kátinu hjá sumum þessara viðkvæmu blóma sem eru hérna að þurfa að taka um hálfan hesthaus, vel blóðugan og lyktandi og sveifla honum yfir tveggja metra háa girðingu. Hittum hlébarða en þar sem það var ekki hlébarðadagur stoppuðum við ekki hjá honum.

Prófaði að renna mér út að hlaupa. Ég er hérna í ca. 2000 metra hæð sem mundi þá flokkast sem High Altitude training og hitinn er þetta 30 gráður plús. Las að vökvatapið er tvöfallt í þessari hæð og þá er eftir að taka hitann með í reikninginn. Það er auðvitað ekkert nema frábært að hlaupa við þessar aðstæður, aðeins erfiðara en samt ekkert eins og maður sé alltaf upp brekku. Ég stoppaði kannski fjórum sinnum á þessum átta kílómetrum til að fá mér vatnssopa. Var bara fjandi ánægður með mig að skokka 8 km á 43,3 en mikið ferlega var púlsinn hár eitthvað. Ætla að reyna að drattast í þetta af einhverri skynsemi og lengja frekar en bæta í hraða.

Andskotinn nú er allt fullt af flugum eða fiðrildum hérna inni hjá mér. Veit ekki hvort þetta er eitthvað tengt Moth skýinu sem hefur verið hérna en óþægilegt er þetta. Svo falla iðulega á mig köngulær eða bjöllur! Hvað er það eiginlega? Þetta minnir einna helst á einhverja hryllingsmynd, pöddurnar hrúgast inn og vilja endilega vera hjá mér.

Nú er morguninn eftir og þó svo að ég hafi drepið fiðrildi í þúsundatali að mér finnst þá er ekkert hérna á gólfinu hjá mér. Maurarnir standa sig í stykkinu og halda vígvellinum hreinum.

Image  —  Posted: 26 December, 2019 in Uncategorized

17 des

Sóttur í gær á hótelið. Annar sjálfboðaliði (Finni) með í för og tókum við svo nokkra starfsmenn með. Þó þetta sé ekki nema 50km þá vorum við nú talsverðan tíma á leiðinni. Rétt sluppum í kvöldmat hérna en síðan var mér skutlað upp í það sem kallað er Bushcamp. Þar er ég í tjaldi númer 7. Þetta er nú talsvert meira en okkar venjulega Seglagerðar Ægis tjald en ég hafði búið mig undir það frumstæðasta í þeirri deildinni. Finninn var settur í tjald í aðalbúðunum meðan mér var skutlað aðeins útfyrir í litlar búðir þar. Ég komst svo að því daginn eftir að meðan ég var að vesenast með risastórar moths þá átti hann í rimmu við stóran bavíana, geggjað að byrja þannig.

Það hafði verið þannig að Sambsa mætti í “tjaldið” sitt og er eitthvað að vesenast bara. Heyrir einhver læti á þakinu en spáir ekkert í það, það er blikk þak, en ætlar síðan í sturtu og hittir þá fyrir helvíti mikinn bavíana. Það er ekkert djók að lenda í þeim, þeir eru nokkuð aggresívir og geta verið hættulegir. Nú Sambsa sem betur fer vissi lítið um þetta en áttaði sig þó á að hann hefði verið í sæmilegustu skítamálum þegar tjaldið hans fylltist allt í einu af mannskap að bjarga honum.

Það er þannig hérna í Namibiu að Bavíanar eru flokkaðir sem meindýr. Það þýðir að þá sem komið er með hingað verða hérna þar sem ólöglegt er að sleppa þeim út í náttúruna aftur. Ástæðan fyrir því að komið er með þá hingað er að fólk fær sér þá sem gæludýr en gefst svo upp þegar þeir fara að stækka og verða ill viðráðanlegir. Því er talsverður fjöldi hérna í búrum sem eru reyndar eru gríðarstór gerði sem eru eins og allt annað hérna mjög flott og viðhaldið frábærlega. Við erum með talsverðan hóp út í friðlandinu og þegar maður gefur þeim að éta sér maður hvað þeir eru varasamir.

Image  —  Posted: 26 December, 2019 in Namibia

Þá er þetta að byrja

Posted: 14 December, 2019 in Uncategorized

12 des.
Lagður af stað. Það sem átti að vera átta tíma stopp í Frankfurt var svo bara sjö tíma stopp þar sem flugið fór klukkutíma fyrr en stóð á miðanum mínum. Kíkti aðeins í bæinn og fékk mér að borða en sá ekki jólamarkaðinn sem þar átti að vera.

13 des.
Flugið til Namibiu var frekar erfitt, svaf lítið og var eitthvað í óstuði. Kominn á hostelið og svona glimrandi sáttur. Hérna ætla ég að vera fram á mánudag en þá verð ég sóttur og farið með mig á leiðarenda. Það er undarlega lítil umferð hérna. Göturnar þriggja akreina en bara einn og einn bíll á ferðinni.

Er með þetta fína Mall og KFC hérna í göngufæri.

14 des.
Kíkti í Mall-ið í dag og keypti mér moskító repellant, bæði armband og sprey. Er strax orðinn nokkuð bitinn en treysti á Malaríulyfið.

Var að koma heim úr ansi hreint hressandi KFC ferð. Var að tala við Hlín í símanum þegar að mér vatt sér náungi og bað um pening. Ég gruflaði aðeins í vasanum og rétti honum 10 Rand. Honum fannst það greinilega ekki nóg og reyndi að hrifsa af mér símann. Allt í einu var vinur hans mættur og sá hótaði að stinga mig. Fyrst sá ég ekki hvað hann var með en sá svo að það var skrúfjárn. Var alveg ákveðinn í að láta þessa gaura ekki taka mig. Öskraði af öllum lífs og sálarkröftum og réðist á þá. Meðan ég var að kljást við þennan með skrúfjárnið náði hinn símanum af mér. Eitthvað gerði ég við rafvirkjann því hann bakkaði og þá náði ég símanum aftur. Hljóp síðan eins hratt og ég gat í átt að hótelinu. Kom þar að par á bíl sem vildi endilega fara með mig og gera eitthvað í þessu, svo kom einhver náungi sem var í einhverjum galla eins og vörður og hann labbaði með mér að staðnum þar sem við tókumst á og þar fann ég gleraugun mín brotin og asnaleg. Þá kom að einhver félagi hans og þeir vildu að við færum og tækjum í gaurana, þeir voru með tazer og táragas en ég þakkaði bara kærlega og sagðist ómögulega vilja vera með eitthvað vesen, það hjálpaði engum.

Ég verð nú að segja að það var smá skjálfti í mér meðan ég beið eftir Zingernum á KFC eftir þetta og ég gekk ansi greitt aftur til baka á hótelið.

Það er nú gaman að bæði æfingar með lóðum og svo öll þessi hlaup á manni komu til góða í kvöld. Ég veit ekki hvort vóg þyngra, það að ég skildi bara hjóla í þá eða hversu fínu hlaupi ég náði þegar ég náði símanum og losaði mig frá þeim. Þeir komu sér í það minnsta burtu.

Óheppilegt að hafa ekki verið búinn að bjarga sér um sótthreinsandi þar sem ég er talsvert hruflaður á höndum og fótum eftir þetta. Sérstaklega er óheppilegt að vatnið í krönunum er alls ekki hæft til skolunar og þaðan af síður til drykkjar.

Kannski ég bara túristist á morgun og fari í skoðunarferð á vegum hostelsins 🙂

Namibia

Posted: 14 December, 2019 in Uncategorized

Hérna ætla ég að vera í átta vikur við ýmis störf. Mest af tímanum verð ég með blettatígra og afríska villihunda en svo fer ég norður og verð þar að vinna með fíla og nashyrninga. Mögulega verður einhver tími sem fer í að kenna börnum ensku. Mér var sagt að mæta í háum leðurskóm til að verjast slöngunum og svo þetta venjulega, hattur og sólgleraugu.

Nú eins og ég hef sagt þá er fullt af æðislegum bónus dýrum þarna.  Ég var alveg drullu skotinn í þeim öllum.  Við vorum þarna með tvær hjartartegundir, Sambar og Barking.  Sambar var bara svona Bambi, hrikalega sætir en svo voru hinir bara alveg jafn skemmtilegir þegar maður fór að reyna við þá.  Bara labba til þeirra með eitthvað gott og þeir urðu vinir þínir alveg um leið.

Villisvínin eru bara geggjuð.  Það er svo mikið líf í kringum þau.  Geltirnir eru sífellt að reyna við gylturnar og jafnvel stundum við aðra gelti.  Rosalega gaman að horfa á þessi dýr og tala við þau.  Gylturnar elska að láta strjúka sér um kviðinn en geltirnir láta ekki ná í sig.  Gaman að þau svara manni þegar maður talar við þau.

Nú svo eru það vatnabuffalóarnir.  Þeir eru ekkert skemmtilegir nema í kringum matinn, þá er oft ansi mikill atgangur í þeim og sá sem kallaður er Tank sýnir alveg hiklaust hver það er sem er aðal.  Aumingja beljurnar fáoft að kenna á honum og reyndar öllum buffalóunum.  Það er sko slatti af standard kúm þarna, Thai kúm.  Stórum en alveg hrikalega horuðum.

Að lokum eru það svo pöddu skrattarnir en þeirra kem ég nú ekki til með að sakna.  Ég ber þeim talsverð merki en vona nú að þau fari að hverfa.  Ekki tók ég heldur neinar myndir af þeim en það hefði nú verið gaman að gera það svona eftir á að hyggja.  Sérstaklega voru sporðdrekarnir flottir og auðvitað var gaman að sjá maurana vinna en maður varð samt bara pirraður á þeim því þeir bitu mann alveg um leið og maður stoppaði.  Ótrúlega óskemmtilegur félagsskapur á klóinu.

Skellti með mynd af umhverfisvæna sorpeyðingartækinu.  Í þetta fór allt sorp frá hofinu.  Þessir kallar iðka það að allt líf sé heilagt en samt taka þeir þátt í að menga umhverfið svona óskaplega.  Mér finnst þetta bölvaður tvískinnungur.  Það er nú svo sem heldur ekki alveg lógíst að vilja ekki drepa en vera samt kjötæta.  Það er eitthvað sem ekki stemmir.

Ég ætla alls ekki að vera með einhverja neikvæðni gagnvart þessum mönnum, það er bara sumt í þessu sem mér finnst ekki alveg svona en þetta er gott lið, þeir vilja vel og hafa gert alveg gríðarlega góða hluti fyrir mannfólkið og dýralífið um allt Kanchanaburi hérað.

 

Líður að lokum

Posted: 30 January, 2015 in Uncategorized

Nú er þessu að ljúka.  Ég á síðasta daginn á morgun.  Það er léttir að mörgu leiti en þetta mætti alveg vera mánuður í viðbót.  Maður er farinn að þekkja dýrin og þau mann.  Maður hefur færst “upp” í aldri með dýrin og Thai staffið lætur mann koma nær og nær.  Mætti strollunni í hliðinu að Tiger island í fyrradag.  Steig til hliðar og þegar ég hélt að allt væri komið fór aftur af stað.   Stend ég ekki fyrir framan eitt fullvaxið, laust.  Maður má ekki sýna ótta og alls ekki forða sér og tókst þetta alveg ágætlega því ekki var ég étinn í þetta skiptið.

Léttirinn verður nú helst í að komast til Íslands.  Góða loftið, pödduleysið og mun betri matur.  Þeir sem halda að þetta sé einhver matvendni í mér, Massaman eða Panang sé nú aldeilis fínn matur, eru aldeilis í rangri sjoppu.  Hérna var þetta hvunndags Thai matur, mjög til sparað og æ svona já ekki spennandi.  Svo þarf ég aðeins að jafna mig líkamlega.  Ég hef lést mikið og er ansi tjónaður á skrokkinn.  Mikið skordýrabit um allt og svo auðvitað talsverðar skrámur eftir dýrin sem ég hef verið að vinna með.  Því miður náði ég mér í ígerð þegar Civet kötturinn beit mig og til að bæta í beit einn litli gaurinn mig svo hressilega í þann putta að það sprakk undan nöglinni.

Ætla að skella mér til Bangkok og vera þar í þrjár nætur en ég byrja þó á því að fara og vera eina nótt í Kanchanaburi fyrst.  Fá mér nudd og kíkja á markaðinn fína.  Ekki lélegt að fá Thai hörkunudd fyrir 200 baht, 800 kall.  Svo er það bara heim með smá stoppi í Óðinsvéum þar sem ég á stefnumót við Fenri töffara.  Hlakka hrikalega til.  Fæ mér vonandi kaffi með Sigga svona fyrst ég verð í DK.

Hverfisgatan er innan seilingar.  Uss hvað ég hlakka til.  Hlín verður rétt komin heim frá France með geitaost og eitthvað fínerí.  Ég kem kannski heim með Buddah.

Hermaur

Posted: 28 January, 2015 in Uncategorized

Voðalega er þetta eitthvað að hrúgast á mig núna.  Tveir sporðdrekar, hlussu, svört könguló og svo heill haugur af Mosquito flugum.  Ég búinn með Deterrentinn minn.  Það er allt eins.  Flugan er fjandi skotin í mér en sú ást er ekki endurgoldin.  Þetta væri kannski ekki svo slæmt ef ég svæfi ekki á gólfinu.  Það lætur mann svona soldið í skotlínuna hjá þessu pöddu dóti.

Svo bætir nú í öll þessi bitsár og skurðir sem ég hef fengið undanfarið eru þannig staðsett að hundleiðinlegt er að loka þeim.  Þá er eins og við manninn mælt að þau fyllast af pínu litlum svörtum flugum sem reyna að troða sér inn í þau.  Það er fjandi óþægilegt og eins soldið krípí.

Það er að hlýna aftur eftir “kuldakastið” hérna um miðjan jan.  Hitinn er aftur kominn vel yfir 30 gráðurnar og sólin alltaf í góðum gír.  Þá eru pöddurnar kátar.

Grísalingurinn vex og dafnar með mömmu í voða fínu gerði sem var gert fínt fyrir þau.  Mamman fékk meira að segja smá drullupoll fyrir sig að hafa sig til í.

Var í Kanchanaburi í gær, frídagur sko.  Fékk mér nöðru og brenndi út í Hellfire pass en það er skarð í Thailand – Burma járnbrautinni sem stríðsfangar og Thailendingar voru neiddir til að leggja.  Japanir voru vondi kallinn þarna.  84 km rúntur, hvora leið, í frábæru veðri og verð ég að segja að það er nokkuð geggjað að brenna um ber að ofan á mótorhjóli.  Ansi magnaður minnisvarði sem þetta safn er um alla þá sem létust við lagningu brautarinnar.  Hellfire pass dregur nafn sitt af því að menn voru látnir vinna 18 tíma á dag í að búa til þetta skarð og þá var eina ljósið bara kyndlar og olíu lampar.  Því nafnið.  Þarna hjuggu menn holur í bergið og sprengdu svo, því næst var allt grjótið fjarlægt með handafli.

Myndirnar með eru af þessum rúnti mínum.  Mest svona bara eitthvað út í loftið en þó eru þarna ansi fínar myndir af fallega bláum Land Rover nú og svo úr Hellfire pass að sjálfsögðu.  Það eru þarna ein eða tvær af brúnni góðu yfir Kwai, þeir segja kvei en ekki kvæ.  Hundurinn bara var þarna þegar ég stoppaði eitt skipti.

Skellti svo með mynd af endurbættri útgáfu okkar JP af þurrkherbergi.  Afköst tvöfölduð og núna tekur bara þrjá tíma að þurrka stuttbuxur.  Gerist ekki betra.